Jóhann Hjálmarsson

Jóhann Hjálmarsson , rithöfundur fæddist 2. júlí árið 1939 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jensína Ágústa Jóhannsdóttir húsmóðir og Hjálmar Bjartmar Elíesersson skipstjóri.

Jóhann ólst upp á Hellissandi og í Reykjavík, en hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar árið 1956. Þaðan lá leiðin í prentnám við Iðnskólann í Reykjavík árin 1956-1959. Að því loknu hélt Jóhann til Barcelona þar sem hann nam spænsku við háskólann. Var það árið 1959 fyrst og svo aftur frá 1965-1966 er hann lagði þar stund á spænsku, las bókmenntafræði og kynnti sér spænskar bókmenntir. Síðar dvaldi hann sumarlangt í þýðingarmiðstöðinni í Tarazona í Aragónhéraði á Spáni. Hann las einnig bókmenntir í Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi 1962-1963 þar sem hann drakk í sig norrænar bókmenntir samtímans.

Jóhann starfaði sem póstafgreiðslumaður, póstfulltrúi og útibússtjóri hjá Póst- og símamálastofnun á árunum 1964-1985 og blaðafulltrúi Pósts og síma frá 1985-1990.

Hann var svo bókmenntagagnrýnandi við Morgunblaðið samhliða öðrum störfum frá 1966 og leiklistargagnrýnandi þess blaðs frá 1967-1988. Árið 1990 gerði hann svo bókmenntagagnrýnina að aðalstarfi og var umsjónarmaður með bókmenntagagnrýni Morgunblaðsins frá 1990 - 2000. Þá stjórnaði hann bókmenntaþáttum í RÚV um skeið.

Af öðrum störfum Jóhanns má nefna að hann var í stjórn Félags íslenskra rithöfunda og Rithöfundasambands Íslands á árunum 1968-1972. Í frímerkjaútgáfunefnd 1982-1988. Í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1981-1990 og 1994-2001, formaður nefndarinnar 1987-1989. Í þýðinganefnd Evrópusambandsins, Ariane, frá 1995. Formaður Samtaka gagnrýnenda 1986-1988. Íslenskur ritstjóri Nordisk Posttidskrift, tímarits norrænu póststjórnanna, 1986-1990. Einn af ritstjórum Forspils 1958-1959. Í ritstjórn Birtings 1958-1961. Þá hafði hann með höndum ýmis nefndarstörf á vegum Pósts og síma og samgönguráðuneytisins á árunum 1985-1990. Árið 1995 var hann skipaður af menntamálaráðuneytinu í samnorræna nefnd gegn útlendingafordómum og hefur setið í fleiri nefndum á vegum menntamálaráðuneytisins, m.a. í Stílverðlaunanefnd Þórbergs Þórðarsonar 1984. Þá tók hann þátt í verkefninu Ljóð og djass með norrænum og íslenskum skáldum og hljómlistarmönnum frá 1972. Félagi í PEN. Jóhann giftist Ragnheiði Kristrúnu Stephensen hjúkrunarforstjóra, og eignaðist með henni þrjú börn, Þorra, rithöfund og kvikmyndaleikstjóra, Döllu, dagskrárgerðarmann og Jóru, ljósmyndara.

Ljóðskáldið

Fyrsta ljóðabók Jóhanns, Aungull í tímann, kom út árið 1956 og síðan þá telja ljóðabækurnar hátt á annan tug, auk smárita. Síðasta bókin þegar þetta er skrifað, Vetrarmegn, kom út árið 2003. Er hún jafnframt síðasta bókin í ljóðaþríleik, þar sem áður komu út Marlíðendur árið 1998 og Hljóðleikar árið 2000, en sú bók var jafnframt tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Sameiningarþáttur þessara þriggja ljóðabóka felst m.a. í því að höfundur sækir sér stef í Eyrbyggju, þó svo að samtíminn sé aldrei langt undan.

Þegar Jóhann kvaddi sér fyrst hljóðs stóð ljóðið á miklum tímamótum. Atómskáldin svokölluðu höfðu þá andæft hefðbundnum kveðskap og rutt veginn fyrir nýjum stefnum og nýjum kennisetningum. Nýja formið var ónumið land og spennandi og það bauð upp á nýja hugsun og ný viðhorf. Þetta nýja ljóð átti líka meiri samsvörun í því sem var að gerast út í hinum stóra heimi. Jóhann ásamt með öðrum skáldum þess tíma, færði okkur nýja strauma að utan, eins og t.a.m. súrrealisma og opna ljóðið. En þrátt fyrir að sækja á ný mið í ljóðagerð, eru ljóð hans sprottin upp úr íslenskum veruleika og það er þetta skemmtilega samspil sem gerir ljóð hans svo sterk og sérstök.

Snemma lagði Jóhann fyrir sig ljóðaþýðingar og hefur verið ötull við að kynna Íslendingum margt af því besta í erlendri ljóðagerð. Á þeim vettvangi liggja eftir hann fimm bækur og eru þær unnar af sömu kostgæfni og næmni og ljóðabækur hans. Þá gaf hann út bók um íslenska nútímaljóðlist árið 1971 og stendur sú bók enn þann dag í dag sem eitt besta yfirlits- og skýringarrit á sínu sviði. Auk alls þessa hafa ljóð Jóhanns verið þýdd á fjölda tungumála og birst í safnritum víða um heim.

Með verkum sínum hefur Jóhann markað sér sess sem eitt af helstu ljóðskáldum sinnar samtíðar og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir, s.s. viðurkenningu úr þýðingarsjóði sænska skáldsins Arturs Lundkvists. Þá hefur hann hlotið listamannalaun, starfslaun úr Rithöfundasjóði Íslands, Launasjóði rithöfunda og úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 1970 svo eitthvað sé nefnt.

Heimildir

Þröstur Helgason – Formáli - Með sverð gegnum varir (Úrval ljóða 1956 -2000) - Jóhann Hjálmarsson – JPV útgáfa – 2001.
Íslenskir samtíðarmenn.